top of page

Forvera
/
Predecession

 

Papier maché

Auður Lóa Guðnadóttir 

Listasafnið á Akureyri,  2022

Tyggjótrúðurinn frá Kjörís var tekinn úr sölu árið 2008 eftir að þriggja ára barni svelgdist á tyggjókúlunni í kjarna íspinnans. Það ku hafa verið í sjöunda skiptið sem slíkt hafði hent á þeim tólf árum sem ísinn var á markaði. Þegar Forvarnahús Sjóvá tilkynnti ísframleiðandanum um atvikið var framleiðsla íspinnans stöðvuð í þáverandi mynd. Tyggjótrúðurinn er með okkur hér í dag. Hann skilur að það sé eðlilegt að minnast á þessa baksögu í sýningartextanum en það eru liðin mörg ár síðan þetta var og ýmislegt hefur breyst. Núna er hann úr pappamassa, segist vera kominn á betri stað og bara nokkuð sprækur með sig. Hingað kominn ásamt heljarinnar hersingu með miskrókóttar farir að baki. Kubbslega sjónvarpstækið, fermingargjöf. Tennissettið, sumargjöf. Mömmubollinn, gríngjöf og margfaldur munaðarleysingi þegar hér er komið við sögu. Nýlega kominn á eftirlaun eftir fimmtán ár á kennarastofunni og gæti alveg hugsað sér að yngja sig upp. Þessi blái og upplitsdjarfi með fíngerða nefið á víst að vera farinn að líta í kringum sig. Smátt og smátt fjölgar í kálhausastellinu, klukkan stendur fast á því að hún sé tólf mínútur yfir tíu og Pamela er aftur kominn upp á vegg. Fyrrverandi konfektkassinn á sitt ríka innra líf. Drottningarvörðurinn alltaf jafn stríðinn og fjólubláa hefðardaman alltaf jafn kitlin. Brosin frosin og meira en lítið sposk þegar þau lokka til sín litla fingur inn í búr og upp á koll. Kortabókin flatmagar á borðinu, þegjandi um ævintýrin framundan. Kúrekadúfan þegir líka.

 

Verkefnið var styrkt af myndlistarsjóði 

bottom of page